Áhorfaendamet slegið á lokasýningunni á Elly

Áhorfendamet Borgarleikhússins var slegið á lokasýningunni á leikritinu vinsæla Elly á Stóra sviði leikhússins í gærkvöldi, laugardaginn 15. júní. Áhorfendafjöldi sýningarinnar, sem fjallar um ævi og ástir Ellyjar Vilhjálms, fór upp í 104.466 talsins. Þetta var sýning númer 220 í röðinni sem er einnig met í Borgarleikhúsinu.

Óhætt er að segja að sýningin hafi slegið í gegn frá fyrsta degi þegar hún var frumsýnd á Nýja sviði Borgarleikhússins laugardaginn 18. mars árið 2017. Allar sýningar leikársins seldust upp á mettíma og varð fljótt ljóst að það þyrfti að færa sýninguna á stærra svið. Það var gert haustið 2017 og var sýningin frumsýnd á Stóra sviðinu fimmtudaginn 31. ágúst 2017.

Síðan þá hefur ekkert lát verið á vinsældum sýningarinnar eins og sýningafjöldi og áhorfendatölur sýna. Hvert metið á fætur öðru hefur verið slegið og nú er svo komið að sýningin á met í Borgarleikhúsinu yfir flestar sýningar og áhorfendafjölda.

Höfundar leikritsins eru Ólafur Egill Egilsson og Gísli Örn Garðarsson, en sá síðarnefndi er einnig leikstjóri sýningarinnar. Katrín Halldóra Sigurðardóttir hefur svo sannarlega stokkið upp á stjörnuhimininn eftir frammistöðu sína í hlutverki Ellyjar. Einnig hafa þau Björn Stefánsson, Björgvin Franz Gíslason, Hjörtur Jóhann Jónsson og Katla Margrét Þorgeirsdóttir fengið mikið lof fyrir sín hlutverk í sýningunni.

Nú er komið að lokum ferðar sem spannar rúmlega tvö ár, 28 mánuði, 122 vikur, tvö leiksvið, átta Grímutilnefningar, tvenn Grímuverðlaun, 220 sýningar og 104.466 áhorfendur. Sýningin hefur verið sýnd í um 37.400 mínútur, um 623 klukkutíma eða um 26 sólarhringa. 

Auglýsing

læk

Instagram