Fyrirtækið Brúnegg er til sölu: „Það er ekkert að þessum eggjum“

Fyrirtækið Brúnegg, sem komst í hámæli eftir umfjöllun Kastljóss um slæman aðbúnað á búum þess, er til sölu.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Allir stærstu viðskiptavinir Brúneggja hættu að selja eggin í kjölfar umfjöllunarinnar og hefur lítið breyst í þeim málum. Einhver egg hafa selst síðustu vikur en ekki fæst uppgefið hvert þau hafa farið.

Sjá einnig: Skynjaði andúð frá tveimur konum þegar hann þurfti að redda brúneggjum fyrir Skaupið

Kristinn Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri og einn eiganda fyrirtækisins, segir mjög sérstakt að fyrirtækinu hafi ekki tekist að selja nein egg í búðir.

„Við höfum ekki selt nein egg í búðir sem okkur þykir mjög sérstakt því það er ekkert að þessum eggjum og bú okkar hafa starfsleyfi. Við erum með verulegan húsakost og annað og höfum verið að standsetja nýtt bú í Brautarholti og erum með gott bú í Borgarfirði. Eggin hafa safnast upp en við höfum einnig dregið úr framleiðslunni,“ segir Kristinn í samtali við Fréttablaðið.

Kristinn segir ljóst að eggjaskortur verði í landinu, vilji verslanir ekki taka við eggjum Brúneggja.

„Það er ljóst að það er þörf fyrir þessi egg á markaðnum og hún verður meiri núna á næstu vikum þegar aðrir framleiðendur þurfa að endurnýja og draga úr sinni framleiðslu. Hænan verpir ekki endalaust og það þarf að tæma húsin og fleira og það er ljóst að það gæti orðið eggjaskortur á næstu vikum ef þessi rekstur heldur ekki áfram,“ segir Kristinn einnig.

Auglýsing

læk

Instagram