Gunnar Nelson segir barnalegt að kenna sér um slagsmál grunnskólakrakka

Gunnar Nelson segir barnalegt að reyna kenna sér um slagsmál sem eiga sér stað á skólalóðum. Þetta kemur fram í viðtali við Gunnar á vef MMA frétta.

Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla, kenndi Gunnar um slagsmál tíu og ellefu ára drengja í skólanum í desember. Í samtali við DV sagði hann „skelfilegt að svona viðbjóðsleg íþrótt sé hafin upp til skýjanna“.

Gunnar gefur lítið fyrir slík ummæli og umræðuna almennt.

Mér finnst þetta bara vera barnalegt. Það er barnalegt að reyna að kenna einhverjum eins og mér, sem er að stunda mína íþrótt, um að einhverjir tveir strákar hafi verið að slást á skólalóð. Slagsmál hafa viðgengist helvíti lengi og langt fyrir mína tíð.

Gunnar segist oft hafa sagt að það sé ekki fyrir alla að horfa á íþróttina. „Foreldrar eiga að dæma um það eða stjórna því hvort börnin sín eigi að horfa á þetta ekki og hvort þau hafi þroska til að skilja hvað er að gerast,“ segir hann á MMA fréttum.

„Að ætla að kenna Michael Schumacher um að einhver hafi keyrt of hratt niður í bæ er eins asnalegt og það hljómar.“

Auglýsing

læk

Instagram