GusGus með tónleika á Esjunni

GusGus kemur fram á Esjunni á laugardaginn klukkan 14. Fjarskiptafyrirtækið Nova stendur fyrir tónleikunum sem eru öllum opnir og aðgangur frír. Boðið verður upp á þyrluferðir upp á Esjuna.

Þetta er í þriðja skipti sem Nova heldur slíka tónleika en í fyrrasumar var það tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti sem spilaði fyrir tónleikagesti á fjallinu.

„Þetta gekk stórvel hjá okkur í fyrra og þeir nokkur þúsund gestir sem komu skemmtu sér konunglega þó að það hafi verið heldur kalt þegar upp var komið,“ segir Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri Nova, í tilkynningu.

Það er enginn kuldi í kortunum fyrir laugardaginn. Veðurspáin lofar góðu, það á vera logn, þurrt og tveggja stafa hitatala þannig að þetta lítur mjög vel út. Ég mæli samt að fólk klæði sig almennilega og sé í góðum skóm fyrir fjallið.

Hægt verður að ganga upp á tónleikasvæðið og eins verða í boði þyrluferðir með þyrluþjónustunni Helo. Flugið upp á fjallið kostar kr. 6.500 krónur á mann og 13 þúsund krónur báðar leiðir. Þau sem borga með AUR appinu fá aðra leiðina á 5.500 krónur og báðar leiðir á 11 þúsund krónur.

„Við erum búin að undirbúa daginn vel og gera ríkar ráðstafanir í bílastæðamálum en hvetjum fólk til að hópa sig saman og fækka þannig fjölda bíla svo umferðin gangi sem best,“ segir Guðmundur.

„Okkar fólk verður á staðnum til að leiðbeina gestum og við hlökkum til að dansa með ungum sem öldnum á Esjunni á laugardag. Þetta verður stuð og hin besta upphitun fyrir leikinn gegn Englendingum á mánudag.“

Auglýsing

læk

Instagram