Lesendum brá þegar RÚV rifjaði upp tíu ára gamla frétt um Suðurlandsskjálftann

Lesendum RÚV.is brá í brún í morgun þegar fyrirsögnin „Tveir skjálftar með þriggja sekúndna millibili“ blasti við þeim. Mynd af malbiki sem hafði flest upp fylgdi fréttinni og það var engu líkara en að miklar náttúruhamfarir hafi orðið.

Fólk gat andað léttar eftir að það smellti á fyrirsögn fréttarinnar en þá kom í ljós að um upprifjun var að ræða. RÚV rifjar upp í dag að tíu ár eru frá Suðurlandsskjálftanum í maí árið 2008.

„Malbik á þjóðvegi eitt og fleiri vegum flettist upp, hús stórskemmdust, persónulegir munir og húsgögn lágu eins og hráviði út um öll gólf á fjölda heimila á Suðurlandi,“ segir í frétt RÚV.

Á meðal þeirra sem gagnrýna framsetningu fréttarinnar er Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. „Lesa þarf áfram til að sjá að 10 ár eru liðin frá því sem rætt er um. Þetta er framsetning sem ég átti ekki von á frá þessum miðli,“ segir hann.

RÚV breytti svo fyrirsögninni í „Tíu ár frá Suðurlandsskjálftanum“ sem er öllu skýrari.

Auglýsing

læk

Instagram