Rannsókn á hugsanlegum hatursglæp á frumstigi – Lögreglan lýsir atburðarrásinni á annan hátt en vinkona kvennanna

Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú glæp í Breiðholti sem hatursglæp en þrjár múslimskar konur urðu fyrir aðkasti þar í gær. Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni við Dalveg í Kópavogi, segir í samtali við fréttastofu RÚV í dag að konan hafi gert að þeim hróp og kallað eitthvað sem þær skildu ekki, fleira hafi ekki farið þeim á milli. Sjá nánar á vef RÚV.

Þórunn Ólafsdóttir, vinkona kvennanna, lýsti atburðarrásinni í Facebook-færslu í dag. Lýsingar Þórunnar eru öllu alvarlegri en hún segir að konan hafi meðal annars hrækt á konurnar og rifið í hijab þeirra. Hún furðar sig á því að lögreglan hafi ekki mætt á svæðið.

Sjá einnig: Hrækti á konurnar og reyndi að rífa í hijab þeirra: „Hversu mörgum svona árásum heyrum við aldrei af?“

Gunnar segir við RÚV að lögreglan hafi ekki mætt á svæðið þar sem að konurnar hafi verið farnar þaðan þegar símtal barst. Konurnar hafi svo komið á lögreglustöðina og greint frá málavöxtum.

Atvikið er rannsakað sem hugsanlegur hatursglæpur og er komið inn á borð miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Haft er eftir Einari Guðberg Jónssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni, á vef RÚV, að málið sé á algeru frumstigi. Engin liggi undir grun enn sem komið er. Hann segir fátítt að tilkynningar af þessu tagi berist lögreglu.

Auglýsing

læk

Instagram