Myndband: Skemmdarvargar reyndu að kveikja í IKEA-geitinni en kveiktu næstum því í sjálfum sér

Tveir skemmdarvargar reyndu að kveikja í jólageit IKEA í nótt. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði heldur voru þeir nær því að kveikja í sjálfum sér. Sjáðu myndbandið hér fyrir ofan.

Starfsfólk IKEA er uggandi yfir því að fólk leggi sig í hættu í von um að kveikja í geitinni og verður öryggisgæsla stórefld vegna atviksins. Þetta segir Guðný Camilla Aradóttir, umhverfis- og marksfulltrúi IKEA, í samtali við Nútímann.

Geitin er vöktuð með öryggismyndavél allan sólarhringinn. Á myndum úr vélinni frá því í nótt má sjá tvo einstaklinga kveikja í einhverju sem þeir hafa líklega ætlað að henda í geitina.

Það fór þó ekki betur en svo að það blossar upp í höndunum á þeim. „Það kviknaði bara í runna og þeir hlupu í burtu,“ segir Guðný.

Við IKEA í Kauptúni er öflugt öryggismyndavélakerfi og öryggisverðir á næturvakt. Þeir sáu atvikið því miður of seint og náðu ekki mönnunum. Ekki er vitað hverjir þeir eru en þeir komu gangandi yfir brúna sem liggur yfir Reykjanesbrautina.

Guðný segir að sumir telji að starfsfólk IKEA vonist á hverju ári til þess að kveikt verði í geitinni og verslunin fái þannig athygli. Hún segir að það sé af og frá. „Það er einlæg von okkar að geitin fái að standa á sínum stað fram yfir jól,“ segir hún.

Auglýsing

læk

Instagram