Snævar er lífsglaður starfsmaður á útfararstofu: „Fáum að aðstoða fólk á erfiðustu stundum lífs þeirra“

Þegar Snævar Jón Andrjesson segir fólki að hann vinni á útfararstofu er honum yfirleitt ekki trúa í fyrstu. Svo hrannast spurningarnar upp en hann er að sjálfsögðu bundinn trúnaði, þannig að fólk græðir lítið á því.

„Það eru ekki skemmtilegar sögur sem koma upp í hugann en það sem kemur á óvart er hversu skemmtileg þessi vinna er,“ segir hann um starfið í samtali við Nútímann.

Við fáum að aðstoða fólk á erfiðustu stundum lífs þeirra og það gefur mér mikið. Samstarfshópurinn er mjög þéttur og náum við gríðar vel saman.

Snævar er 32 ára gamall og starfar hjá Útfararstofu kirkjugarðanna. Elísabet Inga, útsendari Nútímans, fór í heimsókn á útfararstofuna og fékk að líta í kringum sig. Horfðu á myndbandið hér fyrir ofan.

Hann er fæddur árið 1985 á Siglufirði og segist hafa almennt hátt um það að vera Siglfirðingur, hvert sem hann fer. „Ég fór 16 ára í Menntaskólann á Akureyri og þaðan fór ég beint í Háskólann á Bifröst og lærði þar HHS, heismpeki, hagfræði og stjórnmálafræði,“ segir hann.

„Fljótlega eftir að ég kláraði það fór ég svo að læra guðfræði í HÍ og klára það síðar á þessu ári. Ég hef gríðarlega gaman að því að fá að vinna með fólki og hef alltaf haft.“

Snævar fylgist með fótbolta og hefur gaman að íþróttum. „Ég er einkar lífsglaður má segja og vinnan við útfararstofuna minnir mann á hvað lífið er mikil gjöf. Ég er 32 ára og búinn að vera í þessu í þrjú ár með skóla og í fullu starfi. Fólki þykir þetta sérstakt starfsval en þau sem þekkja mig best vita að starfið hentar mér mjög vel.“

En hvað finnst þér mest krefjandi við starfið á útfararstofunni?

„Mest krefjandi er þegar ótímabær dauðsföll eiga sér stað. Það eru krefjandi aðstæður en eins og vinnan í heild þá er það mjög gefandi á sama tíma,“ segir Snævar.

„Útfararstofan er með vakt allan sólarhringinn, allt árið og eru alltaf tveir starfsmenn á vakt í einu. Við gefum hvert öðru styrk sem er gott. Með reynslunni lærist sð takast á við flestar aðstæður sem kunna að koma upp, því allar útfarir eru einstakar og engar tvær eins.“

Auglýsing

læk

Instagram