Af hverju getur þú ekki bara borðað matinn þinn krakki!

Það er nákvæmlega ekkert notalegt við það að sitja til borðs með matvöndnu barni. Barni sem er mögulega fúlt af hungri, pirrað yfir endurteknum skilaboðum um að það þurfi nú að borða eitthvað og úrvinda eftir langan dag. Talandi um meintar gæðastundir með fjölskyldunni. Það eru draumórar fyrir suma að kvöldverðurinn sé tími þess að öll fjölskyldan njóti þess að borða saman næringaríkan og rétt samsettan heimilismat, eldaðan frá grunni, í heimsins ró, næði og nú-i.

Í árdaga siðmenningarinnar sat ábyggilega matvandur krakki við fyrsta bálið sem enginn kveikti óvart og sagði: „En ég elska ekki …. [hvað sem var nú í matinn hjá þeim].“ Þetta er ekkert nýtt.

Rétt upp hönd sem reyndi á þolrif sinna eigin foreldra við matarborðin … Mér var sagt að ef ég borðaði ekki matinn minn þá færi ég í Hólamerina. Það var þjóðsagnakennt mannætuhross sem bjó í nágrenni við bæinn þar sem ég ólst upp, svona ígildi Grýlu fyrir matvönd börn. Ég hataði matmálstímana og svelti mig heldur en að borða í skólamötuneytinu. Mér ennþá illa við formlausan mat (kássur og grauta). Ég var óþolandi. Og núna hef ég samúð með matvendni dóttur minnar því ég man alveg hversu mikil þolraun það var að þurfa að borða. (Stundum, þegar ég var ein eftir í eldhúsinu, þá henti ég leyfunum bak við ísskápinn. Mamma fann þar einu sinni laglega hrúgu af úldnandi rúsínum [ég þoli ekki rúsínur, það er eitt súra samsærið að þau aumu fyrrum-vínber þurfi að troða sér í allt múslí á Íslandi]).

Nú hef ég skrollað mér til óbóta á Pinterest og þegið og prófað ótal ráð, trix og nálganir til að díla við börn og matvendni. Og ég er búin að sætta mig við að krakkinn er matvandur, eins og ég var, og það er bara allt í lagi. Nú þarf ég bara að finna leið til þess að gera matmálstímann bærilegri því hún er ennþá í leikritinu og glansar í hlutverki fúllynda fórnarlambsins sem ekki vill borða. Og svo er hún auðvitað alltaf svöng þegar það er ekki matartími.

Því skal haldið til haga að börn eru ekki með nægilega öflugar tengingar í heilanum til þess að ná utan um röksemdafærslur á borð við: „Þú verður að borða núna svo þú verðir ekki svöng/svangur á eftir.“ Börn eru faktískt með framheilaskaða að þessu leiti, þau bara ná þessu ekki. Þau eru líka svo góð í núinu.

En hvernig geri ég matmálstímana bærilegri fyrir mig, foreldrið? Ég ætti að borða næringaríkan og rétt samsettan heimilismat, eldaðan frá grunni, í heimsins ró, næði og nú-i … og eiga í uppbyggilegum samræðum um daginn minn, landsins gagn og nauðsynjar, vænlega forseta framtíðarinnar, ástand Mývatns og Eurovision. Tálsýnin tikkar inn samviskubitinu þegar ég helli kornflexi í skál og kalla það kvöldmat, og ég borða ein yfir dagblaðinu sem ég hafði ekki tíma til að lesa í morgun. Þetta fyrir mér er það að vera foreldri. Sannkölluð gæðastund.

Auglýsing

læk

Instagram