Arnar Gunnlaugs og Róbert Wessman hluthafar í Mjölni, Jón Viðar stígur til hliðar

Auglýsing

Arnar Gunnlaugsson og Róbert Wessman hafa eignast þriðjung í Mjölni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá íþróttafélaginu. Jón Viðar Arnþórsson, forseti Mjölnis, hefur stigið til hliðar sem starfandi stjórnarformaður.

Jón Viðar er einn af stofnendum og hluthöfum Mjölnis og hefur þjálfað og starfað hjá félaginu frá stofnun. „Hann verður áfram í hluthafahópi félagsins og í stjórn,“ segir í tilkynningu.

Haraldur Nelson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Mjölnis, mun áfram leiða uppbyggingu félagsins ásamt þjálfurum og öðrum starfsmönnum.

Vísir greinir frá því að ágreiningur hafi verið uppi á milli Jóns Viðars og annarra stjórnarmeðlima um ráðningu faglegs framkvæmdastjóra en samkvæmt fréttinni var Jón andsnúinn því. „Þá hafa verið uppi háværar óánægjuraddir innan félagsins með þá ákvörðun Jóns að ráða kærustu sína sem markaðsstjóra félagsins,“ segir í frétt Vísis.

Í færslu á Facebook segir Jón Viðar að muni halda áfram að starfa í stjórn Mjölnis — en meira svona utanfrá. „Eftir svona langan tíma undir miklu álagi tekur maður kannski ekki alltaf réttu ákvarðaninar og því held ég, ásamt fleirum, að gott væri að taka pásu. Ég mun svo sjá til eftir einhverja mánuði hvað ég muni gera,“ segir hann.

Auglýsing

„En þetta er að sjálfsögðu ekki auðveld ákvörðun, þar sem Mjölnir er líf mitt og sál og hef ég fórnað öllu fyrir klúbbinn. Ég er ekki horfinn, en ætla í smá dvala. Endalausa ást til ykkar allra sem sem starfað hafa með mér, mætt á æfingar hjá mér og slegist við mig. Ég hef lært svo mikið af ykkur.“

Haraldur Nelson segir í tilkynningunni að spennandi tímar séu framundan hjá Mjölni. „Ný æfingaaðstaða okkar í Öskjuhlíðinni býður upp á áhugaverða vaxtarmöguleika og við munum efla starfsemi Mjölnis enn frekar á næstu mánuðum,“ segir þar.

„Með nýju og glæsilegu æfingahúsnæði getum við bætt við okkur fleiri iðkendum og fjöldi nýrra námskeiða hefjast nú í september. Jón Viðar hefur unnið gríðarlega gott starf fyrir Mjölni og mun áfram vinna að framgangi félagsins, innan stjórnar sem utan. Með tilkomu nýrra hluthafa styrkist bakland Mjölnis enn frekar, sem gerir okkur kleift að vaxa áfram og veita iðkendum okkar enn betri þjónustu.“

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram