Fær Moggann inn um lúguna þrátt fyrir að afþakka slíkar sendingar með sjö límmiðum

Hörður Ágústsson, eigandi og framkvæmdastjóri Maclands, er orðinn þreyttur á að fá Morgunblaðið inn um lúguna heima hjá sér, þrátt fyrir að vera með sjö límmiða þar sem slíkar sendingar eru afþakkaðar. Hann hefur misst töluna á hversu oft hann hefur afþakkað slíkar sendingar.

Morgunblaðinu var dreift frítt í morgun og beið Harðar við útidyrnar þegar hann vaknaði. Hörður er ekki áskrifandi en Morgunblaðinu er reglulega dreift frítt og svo virðist sem tíðni slíkra dreifinga hafi færst í aukana undanfarið.

Hörður segir í samtali við Nútímann að það ætti ekki að vera svona flókið fyrir fólk að afþakka „svona pappírssóun“ og leggur til að dreifing á frípósti án samþykkis verði bönnuð.

„Ég hef misst töluna á því hversu oft ég hef hringt, sent tölvupóst eða sett upp límmiða á hurðina til að láta vita að ég vil ekki fá nein fríblöð eða neinn póst sem er ætlaður sem auglýsing,“ segir hann.

Ég hef notað Twitter og Facebook-síður viðkomandi miðla til að benda þeim á þetta og þá hef ég fengið viðbrögð en ekkert hefur lagast.

Hörður segist hafa verið orðlaus á dögunum þegar hann sá tíu fríblöð í ganginum í tveggja íbúða stigagangi þar sem skýrt var búið að merkja að enginn kærði sig um blöðin.

„Ég er ekkert meira á móti Mogganum en Fréttablaðinu eða Fréttatímanum,“ segir hann. „Í raun hef ég ekkert á móti þessum blöðum. Ég er bara fylgjandi því að við fáum að velja. Það að afþakka svona pappírssóun ætti ekki að vera svona flókið og skrýtið ferli.“

Eins og myndin hér fyrir ofan sýnir er Hörður með fjölmarga límmiða þar sem umræddar sendingar eru afþakkaðar. Þessar óskir eru hins vegar ekki virtar.

„Þá þarf maður að hringja í dreifingarfyrirtækin og þessi blöð eru ýmist að dreifa þessu sjálf eða í gegnum til dæmis Póstdreifingu,“ segir Hörður. „Og þá er sagt að maður sé kominn af listanum og allir eru voða sorrý. Svo daginn eftir er komið nýtt blað.“

Hörður segir að fólk sem kæri sig ekki um sendingarnar hreinlega neyðist til að vera með vesen. „Þú þarft að hringja, senda tölvupósta, tuða á Facebook og Twitter. Fá alla „snillingana“ sem eru á vinalistanum þínum til að segja við þig: „Sjitt. Hvernig nennirðu þessu tuði? Af hverju hendirðu þessu ekki bara í bláu tunnuna eins og við hin?“. Ég sé þetta bara ekki þannig,“ segir hann.

„Nú er ég með minn eigin rekstur og ég má ekki dreifa upplýsingum um fyrirtækið mitt inn í sjónvarpið þitt, póstlúguna eða á vefsíðuna sem þú ert að lesa eða á Facebook eða Twitter án þess að greiða viðkomandi miðli fyrir það. Ekki satt? Þú getur svo sem neytandi eða lesandi þess miðils valið að horfa ekki á auglýsinguna mína — til dæmis fela hana eða segja upp áskrift að Mogganum, Stundinni, Stöð 2 eða SkjáEinum ef þér misbýður eitthvað. En fríblöðin virðast undanþegin þessari reglu.“

Hörður spyr hversu margir fái blöðin inn um lúguna og nenna ekki að tuða yfir því. „Mín tillaga væri að fríblöðin þyrftu hreinlega að reka áskriftardeild, alveg eins og Mogginn, Stöð 2 og Stundin þurfa að gera. Taka fyrir frídreifingu á þessum blöðum í heimahús sem er ekki bara umhverfisvænt heldur sanngjarnara fyrir markaðinn í heild því dreifingartölur og lestrartölur á þessum blöðum eru oft notaðar til að selja auglýsendum.“

Hann leggur semsagt til að fólk gerist áskrifendur að fríblöðunum og að dreifing á frípósti án þess að fólk samþykki hana, hvort sem það eru dagblöð eða auglýsingar, verði bönnuð.

„Í því samhengi er fyndið að pæla í tölvupóstinum þínum. Þar gilda mjög skýr lög um að þú mátt ekki senda tölvupóst á einhvern sem vill ekki fá hann og í hverjum slíkum pósti þarf að vera hnappur þar sem þú getur látið afskrá þig og afþakkað frekari sendingar,“ segir Hörður.

„Það kerfi sem er núna til vegna fríblaða og auglýsingapósts er hugsað á sama hátt, nema að það virkar ekki. Snúum þessu við og látum fríblöðin þurfa að dreifa á eðlilegan og sanngjarnan máta.

Þau gætu samið við bensínstöðvar, verslunarmiðstöðvar og fleiri fjölfarna staði um að fá að dreifa þessu. En að bera þetta út og gera fólki nær ómögulegt að losna við það er algjörlega galið.“

Auglýsing

læk

Instagram