Guðrún Svava fékk bíladellu og skráði sig í bifvélavirkjun: „Öll störf eru kvennastörf“

Guðrún Svava Gómez, nemi í bifvélavirkjun, segist upplifa mikla jákvæðni gagnvart því að konur séu í starfi sem þykir karllægt. Hún segir þá sem standa henni næst vera stolt af henni fyrir að hafa valið það nám sem hún vildi.

Guðrún er ein af nokkrum stelpum í iðn- og verkgreinanámi sem taka þátt í herferðinni #kvennastarf. Um er að ræða herferð á vegum allra iðn- og tækniskóla landsins. Guðrún segir herferðina frábæra og mikilvæga. „Það er flott að vekja athygli þessum flottu stelpum sem eru í þessu námi og að aðrar geti lært það sem þeim langar til að læra. Burt séð frá orðunum karlæg og kvenlæg störf,“ bætir Guðrún við.

Í samtali við Nútímann segir Guðrún planið aldrei hafa verið að fara í bifvélavirkjun. Hún hafi aftur á móti stefnt að því að fara í listaháskóla að lokinni útskrift af listabraut úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. „Eitt sumarið fékk ég algjöra bíladellu. Ég átti sem sagt svakalega druslu sem ég byrjaði að leika mér að, spreyja felgurnar og afturljósin,“ segir hún.

Það þróaðist síðan í dýpri viðgerðir og breytingar á bílnum. Það má því segja að ég hafi byrjað á því að sameina listina og bifvélavirkjun. Mig langaði síðan til þess að kunna meira og endaði á því að skrá mig í námið.

Eftir sumarið segist Guðrún hafa haft löngun í að kunna meira og endað á því að skrá sig í bifvélavirkjun. „Mín upplifun af þessu öllu saman er langmest jákvæð. Hef að mestu leiti fundið fyrir stolti fyrir það að hafa farið í það nám sem mig langaði í,“ segir hún.

Guðrún segist lítið hafa upplifað fordóma gagnvart því að vera í bifvélavirkjun þó það sé talið karllægt starf.

„Jú jú, fyrst var eitthvað verið að grínast með það hvort ég væri að fara vinna á einhverju verkstæði í svaka vinnugalla. Eftir að ég svaraði þessum spurningum með frekar einföldu jái var lítið annað í umræðunni en bara stolt yfir því að láta enga stimpla stoppa sig í því að gera það sem maður vill,“ segir Guðrún.

Ólafur Sveinn Jóhannesson, deildarstjóri markaðs- og kynningardeildar Tækniskólanns, er einn af talsmönnum herferðarinnar. Hann segir í samtali við Nútímann að þrettán skólar standi að verkefninu og að það samstarf hafi komið til þegar staða kvenna í iðn- og verkgreinastörfum var skoðuð.

„Staða þeirra er ekki nógu góð og eitt af markmiðunum herferðarinnar er að vekja athygli á því að konur starfa í þessum greinum. Við viljum með þessu reyna jafna þann kynjahalla sem er til staðar í þessum starfsgreinum. Aðeins 16% sem lokið hafa sveinsprófi í löggildri iðngrein á Íslandi eru konur,“ segir Ólafur.

Hann segir að þau sem standi að herferðinni vilji fá sem flesta með. „Við hvetjum þv fólk í verk- og iðngreinum, sem og fólk úr öðrum starfstéttum að taka þátt í herferðinni og virkja myllumerkið #kvennastarf með því að setja inn myndir úr námi og starfi eða öðru sem tengist málefni herferðarinnar inn á samfélagsmiðla,“ segir Ólafur.

„Öll störf eru kvennastörf. Konur eiga að geta starfað við það sem þeim sýnist og það sama gildir um karlmenn“.

Hér má sjá meira um herferðina #kvennastarf.

Auglýsing

læk

Instagram