Hópfjármagna nýtt útvegsspil

Útvegsspilið kom út árið 1977 og naut talsverðra vinsælda. Margir hafa beðið eftir því að einhver taki sig til og búi til svipað íslenskt borðspil og nú hafa þrír starfsmenn Sjávarklasans gert einmitt það. Þau Bjarki Vigfússon, Haukur Már Gestsson og Milja Korpela hafa unnið að borðspilinu Aflakló í hjáverkum undanfarna mánuði en hópfjármögnun á spilinu hófst á vef Karolina Fund í dag.

Bjarki er ánægður með afraksturinn:

Aflakló verður flottara og eigulegra en flest önnur borðspil sem hafa komið út á Íslandi. Við svörum kalli Íslendinga eftir „nýju Útvegsspili“ en búum um leið til skemmtilegt og furðulegt spil fyrir alla, sem auk þess er afburðafallegt og vel hannað. Finnski hönnuðurinn Milja Korpela hannar spilið og gerir allar teikningar.

Bjarki segir að Aflakló megi lýsa sem nokkurs konar blöndu af Hættuspili og Útvegsspilinu. „Í spilinu keppast leikmenn svo við að byggja upp útgerðarveldi sín á Íslandi með því að sigla kringum landið, sækja miðin og klekkja hver á öðrum. Á hverju horni leynast óvæntir gestir og norskir útgerðarmenn, Grænfriðungar og tíð ríkisstjórnarskipti valda usla í landi aflaklónna.“

Ýmislegt gengur á meðan á spilinu stendur en eins og til dæmis þetta:

Ný ríkisstjórn heimilanna tekur við völdum. Hún segir að það hafi orðið „forsendubrestur“ sem henni sé skylt að leiðrétta. Það þýðir að elsti leikmaðurinn þarf að leiðrétta hlut hinna og afhenda þeim 10 milljónir á mann.

Bjarki, Milja og Haukur gefa spilið út á eigin vegum og hópfjármögnunin stendur yfir næsta mánuðinn. Smelltu hér til að taka þátt.

Auglýsing

læk

Instagram