Leikstjóri Skaupsins hafði ekki atkvæðisrétt þegar rætt var um Bjarna Ben

Sú óvenjulega staða kom upp að Arnór Pálmi Arnarson, leikstjóri Áramótaskaupsins, var í sambandi með Margréti Bjarnadóttur, dóttur Bjarna Benediktssonar, á meðan framleiðslan stóð yfir. Það kom þó ekki að sök og Bjarni slapp ekki við að láta gera grín að sér. Fjallað er um málið á vef RÚV.

Arnór hefur ekki viljað tjá sig um málið en Dóra Jóhannsdóttir, yfirhandritshöfundur Áramótaskaupsins, segir í samtali við RÚV að tengslin hafi ekki skapað nein vandamál. „Við ákváðum á fyrsta degi að í hvert skipti sem við myndum ræða um Bjarna Benediktsson þá hefði Arnór ekki atkvæðisrétt,“ segir hún í samtali við RÚV.

Bjarni var forsætisráðherra í upphafi árs og er í dag fjármála- og efnahagsráðherra og kom fyrir í nokkrum atriðum í Skaupinu. Raunar segir Dóra að Bjarni hafi verið í fleiri atriðum en nokkur annar stjórnmálamaður. „Ég hafði lokaorðið um allt sem fór í Skaupið,“ segir hún á vef RÚV.

Við viljum ekki vera þekkt fyrir neitt sem heitir ritskoðun.

Í frétt RÚV kemur fram að Arnór hafi upplýst dagskrárstjóra um tengsl sín við Bjarna. „Eftir að búið var að velja umsjónarmenn Skaupsins úr hópi umsækjenda þá upplýsti Arnór Pálmi leikstjóri mig samviskusamlega og af sinni velkunnu fagmennsku um að hann væri í sambandi við dóttur þáverandi forsætisráðherra og núverandi fjármálaráðherra,“ segir dagskrárstjórinn Skarphéðinn Guðmundsson í samtali við RÚV.

Auglýsing

læk

Instagram