Ögmundur hlýðir ekki Ungum vinstri grænum, ætlar ekki að biðjast afsökunar

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, ætlar ekki að biðjast afsökunar á ummælum um konur á Alþingi sem hann lét falla í Vikulokunum á Rás 1 á laugardag. Þetta kemur fram í færslu á vef Ögmundar. Hlustaðu á brot úr þættinum hér fyrir ofan.

Ögmundur sagði konur í stjórnmálum nýta sér neikvætt umtal sjálfum sér til framdráttar. Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, og Björt Ólafsdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, svöruðu Ögmundi fullum hálsi í þættinum.

Sjá einnig: Hanna Birna og Björt svöruðu Ögmundi fullum hálsi í beinni á RÚV, hlustaðu á samantekt

Fram­kvæmda­stjórn Ungra vinstri grænna sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem Ögmundur var hvattur til að biðja allar konur í stjórn­málum afsök­unar á ummælum sínum. Í yfirlýsingunni kom fram að það væri „óásætt­an­legt að þing­maður Vinstri­hreyf­ing­ar­innar – græns fram­boðs tali eins og hin versta mál­pípa feðra­veld­is­ins.“

Þá greindi RÚV frá því í dag að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, væri ekki sammála ummælum Ögmundar.

Í færslu sinni segir Ögmundur að hann eigi erfitt með að biðjast afsökunar á misskilningi eða mistúlkun á orðum sínum. „Ég get hins vegar skýrt betur bæði hvað ég á við með þessum orðum og þá einnig hvað ég á ekki við. Og finnst mér sjálfsagt að verða við slíkum óskum í anda málefnalegrar umræðu,“ segir hann.

Í starfi mínu sem stjórnmálamaður hef ég alla tíð leitað leiða til að sporna gegn kynbundnu misrétti og ofbeldi og eftir bestu getu reynt að leggja jafnréttisbaráttu lið.

Hann segir að í stjórnálum geti fólk misnotað slíka baráttu. „[Og] reynt að skjóta sér undan ábyrgð með því að gera því skóna að viðkomandi séu látnir gjalda kynferðis þegar um raunverulega gagnrýnivert athæfi er að ræða af þeirra hálfu,“ segir hann.

„Á þetta leyfði ég mér að benda og var þetta inntakið í umdeildum orðum mínum í fyrrnefndri útvarpssamræðu.“

Ögmundur segir að jafnréttisbaráttan eigi enn langt í land þótt grundvallarbreyting hafi orðið þar á undanfarna áratugi. „Ég vil leggja mitt af mörkum til að útrýma hvers kyns misrétti, hvort sem er á grundvelli kjara eða kynferðis og vonast ég til að úr orðum mínum verði ekki neitt annað lesið.“

Auglýsing

læk

Instagram