Sindra Sindrasyni svarað: „Það hversu mörgum minnihlutahópum Sindri tilheyrir kemur málinu lítið við“

Aðstandendur ráðstefnunnar og grasrótarhátíðarinnar Truflandi tilvistar lýsa yfir vonbrigðum með það skilningsleysi sem sjónvarpsmaðurinn Sindri Sindrason sýnir reynslu og lífsskilyrðum jaðarsettra einstaklinga.

Sjá einnig: Viðtal Sindra við Töru leggur internetið á hliðina: „Ég er hommi, ég á litað barn, það er ættleitt“

Viðtal Sindra við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, formanns Samtaka um líkamsvirðingu, í fréttum Stöðvar 2 í gær hefur vakið mikla athygli. Í viðtalinu sagði Tara Sindra vera í forréttindastöðu. „Þú þarft að upplifa það að vera í jaðarhópi til að skilja þetta,“ sagði hún.

Sindri greip þá orðið á lofti og spurði hvort hún vissi hvað hann er í mörgum minnihlutahópum. „Ég er hommi, ég á litað barn, það er ættleitt, ég er fyrsti samkynhneigði maðurinn til að ættleiða á Ísland, ég er giftur útlendingi – eða hálfum útlendingi – þannig að við skulum ekki fara þangað.“

Í yfirlýsingu frá aðstandendum ráðstefnunnar og grasrótarhátíðarinnar Truflandi tilvistar kemur fram að Tara Margrét viti fullvel að hatursfull ummæli sem hún hefur margoft lesið um sjálfa sig í athugasemdakerfum fjölmiðla og beinast að líkamsgerð hennar hafi ekki komið ekki „from within“ heldur frá öðru fólki.

Sumt fólk telur, eins og Sindri bendir á, að jaðarsettir hópar verði ekki fyrir neinum fordómum frá öðrum heldur séu fordómarnir bara í hausnum á þessum hópum sjálfum. Svona „within“ eins og Sindri orðar það.

„Tara bendir réttilega á að telji fólk svo vera séu allar líkur á að það sé í forréttindastöðu gagnvart þeim hópum sem upplifa ítrekað fordóma á eigin skinni. Tara veit til að mynda fullvel að hatursfull ummæli sem hún hefur margoft lesið um sjálfa sig í athugasemdakerfum fjölmiðla og beinast að líkamsgerð hennar komu ekki „from within“ heldur einmitt frá öðru fólki.“

Í yfirlýsingunni segir að fjöldi minnihlutahópa sem Sindri tilheyrir komi málinu lítið við. „Því ef skoðun hans er sú að fordómar séu „soldið bara inni í okkur sjálfum“ þá er fullkomlega rökrétt að draga þá ályktun að hann hafi ekki fundið fyrir miklum fordómum á eigin skinni,“ segir þar.

„Í því felast forréttindi. Það er ólíklegt að Sindri hafi upplifað fordóma vegna fitu, fötlunar, þess að vera intersex, trans, fátækur eða með dökkan húðlit jafnvel þó hann búi við jaðarsetningu þegar litið er til annarra þátta. Að auki hefur hann þau forréttindi að hafa fengið að ættleiða, sem margir jaðarhópar búa ekki við.“

Í yfirlýsingunni kemur fram að viðfangsefni ráðstefnunnar Truflandi tilvist hafi einmitt verið „að skoða okkur og upplifun okkar og mennsku okkar sem heild, ekki sem ótengda búta.“

Þá er haft eftir Lydiu Brown, sem talaði á ráðstefnunni, að við búum öll við einhver forréttindi. „Mörg búum við við einhverja jaðarsetningu. Sum okkar upplifa fordóma frá öðru fólki daglega og ber það vott um jaðarsetningu okkar. Önnur okkar upplifa það ekki,“ segir í yfirlýsingunni.

„Það er skylda okkar sem manneskjur að vera meðvituð um hvaða farangur við tökum með okkur þegar við förum inn í tiltekin rými, þ.á.m. fréttastúdíó, og leggja við hlustir þegar aðrir lýsa upplifun sinni og leitast við að skilja. Það á ekki síst við þegar við erum í stöðu fjölmiðlafólks að taka viðtal við fólk sem býr við margfalda mismunun. Það er von okkar að Sindri og allt annað fólk sjái kærleikann og tækifærin í því.“

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild

Aðstandendur ráðstefnunnar og grasrótarhátíðarinnar Truflandi tilvistar vilja koma á framfæri eftirfarandi tilkynningu.

Ráðstefnan braut blað í sögu mannréttindabaráttu hérlendis. Mikil ánægja var meðal þátttakenda og mikilvæg tengsl mynduðust milli jaðarsettra hópa samfélagsins. Á þessum grunni munum við byggja okkar næstu skref í virku og öflugu grasrótarstarfi.

Stöð tvö var með ítarlega umfjöllun um málið og þökkum við Erlu Björg Gunnarsdóttur fyrir að sýna viðfangsefninu áhuga og virðingu og gera því góð skil.

Sem lokainnslag í þeirri umfjöllun kom Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, formaður Samtaka um líkamsvirðingu, í stúdíó til Sindra Sindrasonar fréttaþuls hjá Stöð tvö. Um vel undirbúið innslag í beinni útsendingu var að ræða.

Þegar undirbúnum spurningum lauk fer eftirfarandi samtal á milli þeirra:

Sindri: Svo velti ég öðru fyrir mér og örugglega margir aðrir, eru ekki fordómar oftast svona within svo ég noti nú góða íslensku. Eru fordómarnir svo mikið annarra á móti hverjum öðrum, eru ekki fordómar soldið bara inni í okkur sjálfum.
Tara: Já, þetta er í rauninni bara talað úr munni einhvers sem hefur forréttindastöðu. Þú þarft í rauninni að hafa upplifað að hafa verið í jaðarhópi og upplifað fordómana í raun og veru til að kannski skilja og þetta og…
Sindri: Ertu að tala um að ég hafi verið í…
Tara: Já.
Sindri: Veistu hvað ég er í mörgum minnihlutahópum? Ég er hommi, ég á litað barn, það er ættleitt, ég er fyrsti samkynhneigði maðurinn til að ættleiða á Íslandi, ég er giftur útlendingi, eða hálfum útlendingi þannig að við skulum ekki fara þangað.

Aðstandendur Truflandi tilvistar lýsa yfir vonbrigðum með það skilningsleysi sem Sindri sýnir reynslu og lífsskilyrðum jaðarsettra einstaklinga. Sumt fólk telur, eins og Sindri bendir á, að jaðarsettir hópar verði ekki fyrir neinum fordómum frá öðrum heldur séu fordómarnir bara í hausnum á þessum hópum sjálfum. Svona „within“ eins og Sindri orðar það. Tara bendir réttilega á að telji fólk svo vera séu allar líkur á að það sé í forréttindastöðu gagnvart þeim hópum sem upplifa ítrekað fordóma á eigin skinni. Tara veit til að mynda fullvel að hatursfull ummæli sem hún hefur margoft lesið um sjálfa sig í athugasemdakerfum fjölmiðla og beinast að líkamsgerð hennar komu ekki „from within“ heldur einmitt frá öðru fólki.

Það hversu mörgum minnihlutahópum Sindri tilheyrir kemur málinu lítið við því ef skoðun hans er sú að fordómar séu „soldið bara inni í okkur sjálfum“ þá er fullkomlega rökrétt að draga þá ályktun að hann hafi ekki fundið fyrir miklum fordómum á eigin skinni. Í því felast forréttindi. Það er ólíklegt að Sindri hafi upplifað fordóma vegna fitu, fötlunar, þess að vera intersex, trans, fátækur eða með dökkan húðlit jafnvel þó hann búi við jaðarsetningu þegar litið er til annarra þátta. Að auki hefur hann þau forréttindi að hafa fengið að ættleiða, sem margir jaðarhópar búa ekki við.

Viðfangsefni ráðstefnunnar Truflandi tilvist var einmitt þetta, að skoða okkur og upplifun okkar og mennsku okkar sem heild, ekki sem ótengda búta. Líkt og fram kemur í máli Lydiu Brown búum við öll við einhver forréttindi og mörg búum við við einhverja jaðarsetningu. Sum okkar upplifa fordóma frá öðru fólki daglega og ber það vott um jaðarsetningu okkar. Önnur okkar upplifa það ekki.

Það er skylda okkar sem manneskjur að vera meðvituð um hvaða farangur við tökum með okkur þegar við förum inn í tiltekin rými, þ.á.m. fréttastúdíó, og leggja við hlustir þegar aðrir lýsa upplifun sinni og leitast við að skilja. Það á ekki síst við þegar við erum í stöðu fjölmiðlafólks að taka viðtal við fólk sem býr við margfalda mismunun. Það er von okkar að Sindri og allt annað fólk sjái kærleikann og tækifærin í því.

Auglýsing

læk

Instagram