Tóku upp prufuþátt af Flokki fólksins áður en flokkurinn varð til: „Þátturinn er eldri en flokkurinn sjálfur“

Prufuþáttur af þáttum sem áttu að kallast Flokkur fólksins var tekinn upp snemma árið 2016. Seinna sama ár var svo stjórnmálaflokkurinn Flokkur fólksins stofnaður og býður hann fram í kosningunum sem fara fram á laugardaginn. Um tilviljun er að ræða en Nútíminn frumsýnir nú prufuþáttinn þar sem ætlunin er að gera grín að öllum stjórnmálaflokkum. Horfðu á þáttinn hér fyrir ofan.

Ragnar Hansson, leikstjóri og handritshöfundur þáttanna, segir í samtali við Nútímann að þau hafi verið langt komin með að setja þættina í loftið á sínum tíma.

En sú saga á við fjölmarga þætti og ekki allt ratar alla leið á skjá landsmanna, eins og í þessu tilviki og því miður varð ekkert úr þáttunum að sinni.

Tilgangur prufuþáttarins var einfaldlega að prófa sig áfram og til að sýna sjónvarpsstöðvum eitthvað. Tekið skal fram að þetta sýnir engan veginn hvernig lokaafurð yrði, þar sem lítið er sett í útlit, lýsingu og smink á þessum tímapunkti að sögn Ragnars.

„En við sem að prufuþættinum komum vorum mjög ánægð með hann sem slíkan og þrátt fyrir að það sé þónokkuð í land að gera þetta boðleg fólki sem borgar fyrir dagskrá sína, þá langaði okkur samt að fólk sæi þetta og upp kom sú hugmynd að sleppa þessu jafnvel bara út á netið fyrir síðustu kosningar, sem náðist þó ekki,“ segir Ragnar.

„En viti menn, varla er ár liðið og aftur eru kosningar! Þá kom hugmyndin aftur upp. Sjaldan hefur verið jafnmikil þreyta á stjórnmálum og akkúrat fyrir þessar kosningar og því töldum við gott ráð og jafnvel bara bráðnauðsynlegt að veita landsmönnum þessa gjöf á þessum tímapunkti. Svona til að sýna þeim hvað stjórnmál geta nú verið fáránleg, bráðfyndin og síðast en ekki síst, og kannski því miður; mikilvæg!“

Sagafilm, finnska framleiðslufyrirtækið og allir leikararnir sem að prufuþættinum komu voru samþykk því að leyfa okkur að setja þáttinn á Nútímann. „Köllum þetta nauðsynlega gjöf til þjóðarinnar á þessum erfiðu tímum. Verði ykkur að góðu!“ segir Ragnar.

Þátturinn er byggður á finnskum gamanþáttum með sama nafni. ðFinnsku þættirnir eru mjög góðir og unnið var með framleiðendum þeirra, en ég tók samt grunnhugmyndina og staðfærði talsvert og breytti og endaði með handrit sem við skutum með fimm frábærum leikurum, þeim Gunnari Hanssyni, Hjálmari Hjálmarssyni, Költu Margréti Þorgeirsdóttur, Salóme R. Gunnarsdóttur og Sigurði Þór Óskarssyni,“ segir Ragnar.

„Hugmyndin bak við þættina er frekar einföld og kannski full kunnugleg Íslendingum: Hópur fólks er ósátt við stórnvöld og hendir í nýjan stjórmálaflokk rétt fyrir kosningar og viti menn: Þau slysast inn á þing! En svo þegar þau eru komin þangað þá komast þau að því að þau eru með algerlega ómótaða stefnu og átta sig líka á því, svona eftir á, að þau eru samansett af mjög svo ólíkum persónum með mjög svo ólíkar skoðanir á hvernig á að stjórna samfélagi.“

Tilviljun réði því að stjórnmálaflokkur með sama nafni var stofnaður skömmu eftir að prufuþátturinn var framleiddur. „Það er af og frá að þátturinn okkar beinist að eða er ætlað að gera grín að hinum raunverulega Flokki fólksins sem er nú í miðri kosningabaráttu. Þvert á móti þá á þátturinn okkar að gera grín af ÖLLUM flokkum,“ segir Ragnar.

Auglýsing

læk

Instagram